Seðlabankinn spáir 4,2% hagvexti í ár og er það aukning um heilt prósentustig frá síðustu spá bankans í nóvember. Bankinn spáir því nú að launakostnaður á hverja einingu muni verða um 20% hærri í ár heldur en árið 2014, en í nóvember spáði bankinn því að launakostnaður yrði 18% hærri. Raungengi krónunnar mun hækka hraðar en áður var spáð og atvinnuleysi minnka meira.

Framleiðsluspenna – sem er mælikvarði á þenslu í hagkerfinu – mun aukast hratt í ár. Í lok ársins verður hún um 2% af framleiðslugetu að mati bankans. Í því felst að spennan í íslenska hagkerfinu verður svipað mikil í ár eins og árið 2005, meiri en árið 2006 og næstum því jafn mikil og árið 2007.

Hafa stjórn á verðbólgunni

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að vaxandi spenna sé í hagkerfinu. Hagkerfið vaxi á hraða sem muni ekki geta staðist til lengdar. Bankinn sjái þó ekki fyrir að hann muni missa tökin á ástandinu, meðal annars þar sem alþjóðaaðstæður hjálpa til.

„En fyrst og fremst er peningastefnan að tryggja það með þessu vaxtastigi sem við erum með. Það er okkar hlutverk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .