Þessi svokallaða aðför að einkabílnum hefur verið eignuð þér og Hjálmari Sveinssyni sérstaklega. Viðreisn tefldi fram því loforði að stækka svæði gjaldskyldra stæða í borginni. Eru þetta skref sem þið mynduð vilja taka?

„Við höfum verið að stækka gjaldsvæðin. Íbúar kalla oft eftir gjaldtöku á miðborgarsvæðinu. Þeir fá þá íbúakort og geta notað stæðin en þeir sem eru að koma í styttri tíma greiða í stöðumæli. Það er bara framhald af þeirri stefnu sem hefur verið rekin. Kynslóðir barna okkar munu aldrei gagnrýna okkur fyrir að hafa gengið of langt í græna átt varðandi þróun borgarinnar. Það er miklu frekar hitt að okkur verði legið á hálsi fyrir að taka þetta í svona jöfnum skrefum og reyna að fá fólk með og gera aðra ferðamáta en einkabílinn að alvöruvalkosti. Við viljum fá fólk með í þetta og viljum að fólk geti fundið í nokkra vetur að það sé öruggt og flott að vera hjólandi eða í strætó. Við sjáum í hjólatölum að þar höfum við náð markmiðum sem áttu ekki að nást fyrr en 2030. Það segir manni að ef staðið er sæmilega vel að málum þá er ekki eins og stundum er sagt að Ísland sé svo sérstakt að fólk hér sé öðruvísi en annars staðar í heiminum. Borgir á okkar breiddargráðu hafa náð frábærum árangri. Borgir í Mið- Evrópu sem áður voru með ferðavenjur eins og við hafa innleitt Borgarlínu og öflugri almenningssamgöngur. Fólk velur það, ef það er bara nógu gott. Það eru rök fyrir því í heimilisbókhaldinu og þetta er líka eitthvað sem fólk tileinkar sér þegar það býr erlendis,“ segir Dagur.

„Þarna er líka ofboðslega mikill kynslóðamunur. Ég finn að ungt fólk er miklu tilbúnara að tileinka sér bíllausan lífsstíl eða notar bíl bara af og til. Þess vegna er  Zipcar  sem núna er komið til borgarinnar mjög mikilvægt. Í mínum huga er allt í lagi að eldri kynslóðir vilji þetta síður. Í okkar áætlunum sjáum við ekki fyrir okkur að þeir sem hafa notað bílinn í ár og áratugi hætti því heldur bara að viðbótarumferðin ferðist með öðrum hætti. Ég hef líka lagt áherslu á að eftir því sem fleiri nota almenningssamgöngur, þeim mun liprari verður umferðin fyrir alla, líka þá sem nota göturnar á bíl.“

Kannanir benda til að meirihlutinn sé á mörkunum að falla eða fallinn, eru einhverjar þreifingar í gangi um líklegt meirihlutasamstarf?

„Ekki mér að vitandi og ég held að það sé kannski svolítið snemmt að mynda meirihluta núna mánuði fyrir kosningar. Framboðin eru hvert af öðru að kynna sitt fólk og sýna stefnu og ég held að umræðan verði að fá að kristallast aðeins áður en það er hægt að slá einhverju föstu. Þó vonast ég til að framboðin átti sig á að Ísland á bara eina borg og eitt tækifæri til að þróa áhugaverða og góða borg. Við verðum að nýta það tækifæri og að ábyrgð okkar er mikil.“

Er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi á síðustu fjórum árum?

„Ég sýndi kannski ansi mikla þolinmæði þegar Eygló Harðardóttir var að koma húsnæðisfrumvörpunum í gegn. Þau áttu fyrst að vera tilbúin haustið 2014 en urðu ekki að lögum fyrr en 2016. Mjög mikilvæg verkefni biðu eftir fjármögnun úr þeirri átt – eins og verkefnin sem við erum að vinna með verkalýðshreyfingunni gegnum Bjarg um endurreisn verkamannabústaðakerfisins. Þar eru 1.000 íbúðir að rísa en hefðu hugsanlega getað verið tveimur árum fyrr á ferðinni. Eins má segja um lóðir sem við höfðum bent á fyrir löngu og ríkið hefur farið með og okkur hafa fundist augljós þéttingarsvæði eins og Veðurstofureiturinn og Stýrimannaskólareiturinn sem við fengum fyrir örfáum vikum en skrifuðum fyrstu bréfin varðandi hann 2013. Við erum ekki enn búin að ná samningum um Keldnalandið, sem er kannski stærsta einstaka byggingarsvæðið sem er á hendi ríkisins og heldur ekki Landhelgisgæslureitinn við Ánanaust sem er frábær byggingarlóð. Mér finnst ekki að allir hafi gengið í takt við okkar sýn um að það þyrfti að lyfta grettistaki á húsnæðismarkaði og gera það hratt. Reykjavík er að sumu leyti eina sveitarfélagið í þessu. Þá er ég ekki að segja að hin sveitarfélögin vilji ekki að það byggist íbúðir hjá sér heldur er ég að tala um að heilbrigður húsnæðismarkaður verður ekki til bara við það að það séu byggðar íbúðir heldur að öllum hlutum samfélagsins sé sinnt á húsnæðismarkaði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .