Rekstrarhalli Reykjaneshafnar fyrir árið 2015 verður um það bil þrefalt hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samkvæmt rekstraráætlun fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir rekstrarhalla upp á 114 milljónir króna, en samkvæmt útkomuspá eftir rekstraruppgjör fyrstu sex mánuði er gert ráð fyrir halla upp á 338 milljónir króna. Þetta er munur sem nemur 224 milljónum króna.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um rekstur Reykjaneshafnar en höfnin hefur skilað neikvæðri rekstrarafkomu á hverju ári frá stofnun félagsins árið 2005. Rekstur Reykjaneshafnar á árinu 2014 var neikvæður um 103,5 milljónir króna og neikvæður um 650,5 milljónir króna árið 2013.

Í byrjun október var einnig greint frá því að vegna slæmrar fjárhagsstöðu og skuldbindingar sem eru á gjalddaga þann 15. október nk.geti komið til greiðslufalls hjá Reykjaneshöfn.

Þessi slæma fjárhagsstaða Reykjaneshafnar hefur mikil áhrif á fjárhag Reykjanesbæjar en í gær var tilkynnt að ef Reykjanesbær nær ekki samningum við kröfuhafa um endurskipulagningu og verulega niðurfellingu skulda hjá Reykjanesbæ muni bæjarfélaginu vera skipuð fjárhagsstjórn, eins og skylt er samkvæmt sveitastjórnarlögum. Aðkoma kröfuhafa Reykjaneshafnar í formi endurskipulagningar skulda er forsenda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Reykjanesbæjar.