Dæmi eru um að á bestu uppsjávarskipunum sé hásetahluturinn yfir 30 milljónir að því er kemur fram í máli eins útgerðarmanns sem Morgunblaðið vitnar í.

Launin í bestu plássunum eru um 200 þúsund krónur fyrir hvern sjódag, en þeir eru um 160 á ári og oft tveir menn um hverja stöðu, sem þýðir þá um 15 milljóna laun fyrir að vera um 80 daga á sjó.

Hins vegar séu útgerðarflokkar þar sem laun sjómanna fara niður í 60 þúsund krónur fyrir sjódag og þá hásetahluturinn mun lægri, svo varasamt sé að setja fram meðaltalstölur að hans mati.

Minnsta svigrúmið þar sem launin eru lægst

Segir hann að væntanlega sé ein meginástæðan fyrir erfiðleikum útgerðarinnar með að hreyfa við olíuviðmiðinu í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarmanna sú að staða útgerðanna og útgerðarflokkanna sé svo misjöfn.

„Vandamálið er að þar sem helst þarf að laga sjómannslaunin og stöðu manna er þar sem minnsta svigrúmið er og hæsti launakostnaðurinn," vitnar blaðið í ónefndan útgerðarmann.

„Þar á ég við línubáta- og dragnótarútgerðir. Launakostnaður hjá dragnótabátum er 50%, hjá línubátum og frystitogurum um 42%. Þar sem samninganefndirnar hafa ekki komist niður á að ræða einstaka skipaflokka virðist vera erfitt um vik í þessu máli."

Eiga eftir sömu tækniumbætur

Að mati annars eigi bolfiskveiðar og -vinnsla eftir að ganga í gegnum ákveðna uppstokkun meðan tækniframfarir og umbætur í uppsjávarfiskveiðum hafi skilað sér beint í vasa sjómanna. Þess vegna séu sjómenn í þeim flokki langlaunahæstu mennirnir í íslenskum sjávarútvegi.

Sú uppstokkun sé þú hafin með endurnýjun togaraflotans og tæknivæðingu á vinnslunni með tilkomu skurðarvéla og sjálfvirkra vinnslulína.

Sjómenn og útgerðarmenn greinir á um kostnaðinn við kröfur sjómanna, sjómenn segja hann vera um 3 milljarðar króna, en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja hann vera um 4 milljarða króna. Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í meira en tvo mánuði.