Útlit er fyrir að einkaneysla muni vaxa hraðar á seinni helmingi ársins heldur en á þeim fyrri samkvæmt greiningu Íslandsbanka . Einnig er greint frá því að vöxtur ferðamennsku utan háannatíma hefur leitt til þess að gjaldeyrisútflæði vegna ferðamanna fylgir ekki lengur vetrartíma, eins og reglan var til skamms tíma.

Kortavelta einstaklinga jókst að raunvirði um 6,3% milli ára í október sl. Kortavelta Íslendinga erlendis jókst um sem nemur 21,4% að raunvirði en kortavelta innanlands um 4,1%%.

Á fyrri árshelmingi jókst kortavelta einstaklinga um 4,8% að raunvirði og einkaneysla jókst um 4,4%. Það sem af er seinni árshelmingi hefur kortavelta aukist um 6,4% og má búast við talsvert meiri vexti á einkaneyslu á seinni helming heldur en fyrri. Þróunin er að einhverju leyti rakin til þess að kjarasamningsviðræður, verkfallsaðgerðir og tengdri óvissa hafi haldið aftur af eftirspurn á fyrri árshelming. Niðurstaða kjarasamningsviðræðna hafi síðan gefið innspýtingu á seinni árshelming.

Kortaveltujöfnuður í október jákvæður í fyrsta skipti frá upphafi

Kortavelta útlendinga á Íslandi var ríflega 10,4 milljarðar í október, en það er 45% aukning frá fyrra ári. Kortavelta Íslendinga í útlöndum var 10,1 í október og var kortaveltujöfnuður því jákvæður um 0,4 milljarða í október. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi sem kortaveltujöfnuður er jákvæður í október.