Auðlindastefnunefnd kynnti á dögunum drög að heildstæðri stefnu í auðlindamálum ríkisins. Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og dósent við hagfræðideild HÍ, ræddi tillögurnar í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég held að þessar hugmyndir séu ágætlega skynsamlegar. Það er til að mynda gerður greinarmunur á endurnýjanlegum og óendurnýjanlegum auðlindum. Þannig er gengið út frá því að svo lengi sem við nýtum endurnýjanlegu auðlindirnar með sjálfbærum hætti sé ekki gengið á náttúruauðinn og þar af leiðandi sé engin sérstök ástæða til að safna upp þessum peningum. Þetta er bara flæði sem þjóðin getur nýtt tekjurnar af til verkefna á hverjum tíma. Hvað varðar óendurnýjanlegar auðlindir þá er eðlilegt að taka tillit til þess að gengið er á þær í dag með því að breyta formi þeirra. Olíunni er dælt upp úr jörðinni, og hún því ekki aðgengileg komandi kynslóðum, en hagnaðurinn er lagður í sjóð. Ávöxtunin af honum er svo notuð til verkefna. Þar með er skipt út einni tegund af auði, eða eignum, fyrir aðra gerð eigna sem er þá peningaleg eign eða annað sem menn fjárfesta í. Heildareignirnar haldast samt óbreyttar. Sú hugsun er í þessari skýrslu að til lengri tíma sé ekki gengið á nein auðævi. Hugsanlega skipta þau um form en það er ekki gengið á þau. Það held ég að sé skynsamlegt."

Þó að mörgu megi hrósa í tillögunum segir Daði ýmsu ábótavant. "Það vantar skýrar gegnumgangandi línur um hvernig skuli standa að gjaldtöku fyrir nýtingarrétt. Vissulega er hver auðlind fyrir sig tekin fyrir og lagðar fram ákveðnar tillögur. Með því að lesa þær tillögur fær maður vissulega ákveðna meginlínu en það dugar ekki til," segir Daði.

Hann segir jafnframt mikilvægt sé að skoða samspil ólíkrar skattheimtu. "Ef við ímyndum okkur að við getum mælt auðlindarentuna þá inniheldur hún skattalegan hagnað fyrirtækja. Eins og liggur í orðanna hljóðan er sá hagnaður í dag skattlagður. Sem þýðir auðvitað að ef þú leggur gjald á auðlindarentuna þá kemur það til viðbótar við tekjuskattinn. Svo það er mikilvægt að huga að samspili þessara skatta."

Nánar er fjallað um málið í viðtali við Daða Má í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.