Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir að bæjarstjórn fagni þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á Alþingi til stórfelldra samgöngubóta sem fyrirhugaðar eru á næstu árum og verða fjármagnaðar með álagningu veggjalda.

„Við höfum kallað þessi gjöld flýtigjöld og ástæðan fyrir því er sú að við sjáum fyrir okkur að með því sé mögulegt að fara í þessi verkefni sem annars eru ekki á samgönguáætlun. Dæmi um það er Sundabraut. Þessi gjöld geta því stuðlað að mjög nauðsynlegum bótum á vegakerfinu sem munu auka öryggi og lækka kostnað vegfarenda. Við höfum áhyggjur af því að ef ekki verði farin þessi veggjaldaleið, munum við horfa upp á það að verkefni líkt og Sundabraut verði ekki að veruleika á næstu 15-20 árum. Það er ekki verið að tala um að gjöldin muni koma á núna og svo verði mannvirkin byggð eftir til dæmis sjö ár, heldur þarf að byggja upp mannvirkin og svo byrjar fólk að greiða fyrir notkunina eftir að mannvirkin eru risin - rétt eins og gert var með Hvalfjarðargöng."

Sævar segir að bæjarstjórnin leggi mikla áherslu á að tryggt verði ákveðið jafnræði í gjaldtökunni. „Það verður að gæta þess að fólk sem noti mannvirkin mjög mikið muni njóta þess með einhverjum hætti."

Sævar bendir einnig á að mikilvægt sé að nýta þá þekkingu sem varð til innan raða Spalar, sem sá um rekstur Hvalfjarðarganga þar til göngin höfðu verið greidd upp að fullu. „Nú er tiltölulega nýbúið að ljúka því að greiða upp Hvalfjarðargöng og við á Akranesi sjáum það að við höfum hvað mestu þekkinguna á landinu varðandi það hvernig eigi að huga að svona lausnum. Við viljum því að sú þekking sem varð til hjá Speli verði nýtt þegar byggt verður upp nýtt fyrirtæki til þess að halda utan um þetta verkefni. Við höfum því sóst eftir því að þegar það verði stofnað opinbert hlutafélag í kringum verkefnið, verði það staðsett á Akranesi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .