Það fjármálafyrirtæki sem hafði mesta veltu á viðskiptum með skuldabréf það sem af er ári er MP banki (nú Kvika) með 23% hlutdeild en á hlutabréfamarkaði hefur Landsbankinn vinninginn með 29% hlutdeild. Þetta kemur fram í gögnum Kauphallarinnar um hlutdeild kauphallaraðila í veltu verðbréfamarkaða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Miklar breytingar hafa verið á fjármálafyrirtækjum landsins á árinu sem hafa ber í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar. Stærsta breytingin er sú að MP banki og Straumur fjárfestingabanki voru sameinaðir í júní. Það gerir það að verkum að frá því í júlímánuði á þessu ári hefur Straumur enga hlutdeild af viðskiptum á verð­bréfamarkaði. Samanlögð hlutdeild MP banka og Straums á fyrstu sex mánuðum ársins var 33% af heildarveltu á skuldabréfamarkaði og 20% á hlutabréfamarkaði. Hlutdeild sameinaðs banka, sem nú heitir Kvika , á síðustu þremur mánuðum nam 28% á skuldabréfamarkaði og 19% á hlutabréfamarkaði. Það sem ber þó að hafa í huga þegar þær tölur eru skoðaðar að sameinað félag er nú með eina viðskiptavakt í stað tveggja þegar félögin voru aðskilin.

Fossar koma sterkir inn

Á svipuðum tíma og sameining MP banka og Straums gekk í gegn stofnuðu nokkrir fyrrverandi starfsmenn Straums verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir. Þrátt fyrir að hlutdeild þeirra í veltu viðskipta á Kauphöllinni sé aðeins merkt frá því í júlí á þessu ári eiga þeir engu að síður 4,31% af heildarveltu þess sem af er ári á skuldabréfamarkaði og 3,07% af heildarveltu hlutabréfamarkaðarins á sama tíma. Ef aðeins er tekin velta síðustu þriggja mánaða sést jafnvel betur hvernig hlutdeild Fossa er í samanburði við önnur fjármálafyrirtæki. Af þeirri 198 milljarða veltu sem hefur verið á hlutabréfavið­skiptum á þessum tíma hafa Fossar 8% hlutdeild. Á skuldabréfamarkaði hafa Fossar 11% af 1.148 milljarða heildarveltu markaðarins en þar er MP banki efstur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .