Breytt umhverfi fjármála­þjónustu var aðalumræðuefnið á vorráð­ stefnu Reiknistofu bankanna sem fram fór í Hörpu á dögunum.  Áherslan var lögð á fjártækni, eða FinTech , sem líkleg er til að gerbreyta fjármálaþjónustu eins og við þekkjum hana á næstu árum. Fjártækni hefur nú þegar sett mark sitt á fjármálageirann hér á landi og úti í heimi, en meðal árangursríkra íslenskra fjártæknifyrirtækja má nefna hið ört vaxandi Meniga, sem er nú með yfir 100 starfsmenn í þremur löndum og nær til 20 milljóna manna. Þá hafa greiðsluforrit á borð við Aur og Kass notið vaxandi vinsælda meðal Íslendinga.

Mörg áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni í gær. Með­ al fyrirlesara voru Babak Hodjat, einn aðalmaðurinn á bak við gervigreindina Siri, og frumkvöð­ ullinn Jason Bates sem stofnað hefur tvo stafræna banka og ráð­ leggur nú fjármálafyrirtækjum hvernig þau geta aðlagast nýjum tímum. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna, flutti einnig erindi, en hann segir það hafa verið vel við hæfi að láta vorráðstefnuna snúast um fjártækni.

Nýir leikendur verða til

„Ástæðan fyrir því að við ákváð­ um að halda ráðstefnu um þetta efni er sú að við teljum að það muni eiga sér stað miklar breytingar á bankamarkaði á næstu árum,“ segir Friðrik. Ástæðan er ekki einungis örar tækniframfarir, heldur einnig miklar lagabreytingar frá Evrópu sem verða innleiddar hér á landi og koma til með að gerbreyta umhverfi íslenskra fjármálafyrirtækja. Nýju lögin nefnast PSD2 (Revised Payment Service Directive) og voru samþykkt í janúar 2016. Löndin á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal Ísland, hafa frest til 13. jan­ úar 2018 til að innleiða lögin.

„Ný lög um greiðsluþjónustu munu aðskilja framleiðslu á bankaþjónustu frá dreifingu á bankaþjónustu, svipað og gerðist þegar fjarskiptamarkaðurinn var opnaður árið 1998 og orkumarkaðurinn um áratug síðar. Þá mega nýir aðilar framkvæma greiðslur frá innlánareikningi einstaklinga inn á aðra reikninga og safna upplýsingum um viðskipti einstaklinga og fyrirtækja, svo lengi sem upplýst samþykki liggur fyrir. Þetta mun t.d. gera aðilum kleift að búa til netbanka þar sem allar fjárhagsupplýsingar eru á einum stað, jafnvel þótt þú sért í viðskiptum við fleiri en einn banka. Fólk mun geta verslað með farsímanum og farið algerlega framhjá kortakerfunum. Menn geta farið að búa til viðskiptamódel sem byggja á öðru heldur en færslugjöldum, t.d. á auglýsingum eða slíku,“ segir Friðrik og ljóst er að um miklar breytingar er að ræða.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast rafræna útgáfu blaðsins með því að smella á Tölublöð .