Það sem af er degi hefur Úrvalsvísitala kauphallarinnar lækkað um ein 2,86%. Viðmælendur Viðskiptablaðsins meðal miðlara rekja þessa lækkun meðal annars til þess að Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í Icelandair Group, seldi í dag 400.000 hluti í félaginu fyrir 9,6 milljónir króna.

Það sem af er degi hefur gengi bréfa Icelandair Group lækkað um 4,68% í ríflega milljarðs króna viðskiptum. Gengi Marels hefur lækkað um 3,23%, Regins um 2,66%, VÍS um 2,47% og Reita um 2,17%.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins benda á að markaðurinn hafi verið viðkvæmur fyrir. Í vikunni hafi komið í ljós að Deutsche bank hafi nær rambað á barmi falls. Þá kom frétt frá Dohop um að flugfargjöld væru í lægstu lægðum. Markaðurinn hafi því haft áhyggjur af stöðunni hjá Icelandair. Fréttir af sölu stjórnarmannsins hafi svo hreyft við mönnum. Þá benda þeir á að lífeyrissjóðirnir hafi ekki verið eins virkir á hlutabréfamarkaði og undanfarin ár og alls ekki á kauphliðinni. Því þurfi minna til en ella til að fréttir sem þessar leiði til lækkana.