Áætlanir Icelandair sem gera ráð fyrir að EBITDA ársins 2017 lækki um rúmlega 30% frá árinu 2016 eru að mati Snorra Jakobssonar fjármála- og hagfræðiráðgjafa hjá Capacent bæði athyglisverðar og afgerandi.

„Icelandair sendi út frá sér fréttatilkynningu í morgun þar sem félagið gaf út að miðað við núverandi forsendur gerir Icelandair Group ráð fyrir að EBITDA ársins 2017 verði 140 til 150 milljónir dollara og er það lækkun upp á rúmlega 30% frá árinu 2016," segir Snorri.

„Miklar sveiflur í afkomu Icelandair undirstrika þá óvissu sem er í rekstri flugfélaga og hversu hverful eftirspurn í ferðaþjónustu getur verið."

Snorri segir erfitt er að spá, sérstaklega um framtíðina, eins og stundum hefur verið sagt. „Það á við hér.

  • Hvað gerist með olíuverðið, til dæmis? Ef það hækkar þá hækka flugmiðar í verði og fólk flýgur minna. Hvað gerist með íslensku krónuna?
  • Ef hún heldur áfram að vera svona sterk, eða styrkist enn frekar, þá hætta túristar kannski að flykkjast til Íslands, því allt verður svo dýrt.
  • Hvað gerist ef það kemur eldgos á Íslandi eða hryðjuverk aukast í helstu viðskiptaborgum Icelandair í Evrópu?."

Segir Snorri ljóst að hækkun olíuverðs og styrking krónunnar á fjórða ársfjórðungi höfðu neikvæð áhrif á afkomu Icelandair.

„Einnig hefur samkeppni á flugleiðinni til Íslands haft umtalsverð áhrif á rekstur Icelandair en verð flugfargjalda var 25% lægra í janúar 2017 en það var í janúar 2016 skv. vísitölu neysluverðs," segir Snorri sem segir aukna óvissu í stjórnmálum vestanhafs einnig geta dregið úr eftirspurn eftir flugfargjöldum.

„Óvissu þættirnir eru því margir og ytri stærðirnar sem hafa áhrif á rekstrarafkomu Icelandair hafa þróast í óhagstæða átt fyrir Icalandair til skamms tíma.

Í kjölfar níu mánaða uppgjörs Icelandair lækkaði Capacent verðmat Icelandair en ein aðalástæða þess var sú að hlutfall launakostnaðar af veltu var orðinn rúm 25% á árinu og gæti orðið um 27% á árinu, en var að meðaltali tæp 24% frá 2012 til 2015.

Hærri launakostnaður hefur töluverð neikvæð áhrif á EBITDA hlutfallið til lækkunar og gerir reksturinn þyngri en ella."