kvótaverð
kvótaverð

Leiguverð aflaheimilda hefur lækkað í flestum aflamarkstegundum síðastliðið ár og í mörgum tilfellum er um verulegar verðlækkanir að ræða, sér í lagi í krókaaflamarkskerfinu. Lækkunin er til marks um leiðréttingu á ójafnvægi sem ríkt hefur í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja og bendir ýmislegt til að það ferli sé langt á veg komið. Hins vegar liggur ekki í augum upp hvað olli ójafnvæginu til að byrja með.

kvótaverð
kvótaverð

Eftir tiltölulegar jafnar og hægar verðhækkanir árin á undan tók leiguverð á þorskkvóta í litla kerfinu að falla hratt um mitt ár 2017. Sama ár fór leigan hæst upp í 235 kr./kg en ári seinna datt hún lægst niður fyrir 100 kr./kg. Leiguverð á þorski í aflamarkskerfinu (stóra) hefur ekki tekið viðlíka dýfu en þar hafa miklar verðlækkanir verið í öðrum tegundum. Til dæmis má tala um hrun í leiguverði ýsu sem kostar nú aðeins tíund af því sem hún gerði á árunum 2012-2015. Sömu sögu má segja um leiguverð á ufsakvóta í stóra kerfinu.

Þessi mikla lækkun á leiguverði endurspeglar ekki sambærilega lækkun á verði varanlegra aflaheimilda. Þorskkvóti í krókakerfinu hefur þó lækkað nokkuð, úr 2.400 kr./kg árið 2016 niður í 2.100 kr./kg í dag. Á sama tímabili hefur eignakvóti í þorski í stóra kerfinu hins vegar hækkað, sem vekur athygli því samhliða hefur leiguverð sömu aflaheimilda lækkað. Ástandið á leigumarkaði er engu að síður ótvíræð vísbending um þrýsting til verðlækkunar á varanlegum heimildum því miðað við núverandi leigutekjur skilar fjárfesting í kvóta afar lélegri ávöxtun.

afkoma sjávarútvegsins
afkoma sjávarútvegsins