Ingólfur Bender , aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að töluvert sé framundan í fjárfestingum hjá hinu opinbera en að á móti sé að draga úr fjárfestingu einkaaðila og sérstaklega fyrirtækja. Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn er samantekt á nokkrum stórum verklegum framkvæmdum, sem framundan eru á næstu þremur árum.

„Heilt á litið tel ég ekki við séum að sjá mikinn vöxt í fjárfestingu fyrirtækja,“ segir Ingólfur. „Hið opinbera er að fara í viðamiklar innviðafjárfestingar og ég tel að það sé núna að myndast svigrúm fyrir þeim, sérstaklega af því við sjáum samdrátt í atvinnuvegafjárfestingunni – sérstaklega tengdri ferðaþjónustu og stóriðju. Ég sé ekki að byggingageirinn verði í vandræðum með að anna þessu því það hefur hægt mikið á ráðningum starfsmanna í þeim geira. Það má sjá í opinberum tölum frá Hagstofunni.“

Ingólfur segir jákvætt að hið opinbera sé að fjárfesta núna. Það vegi upp á móti mögulegum slaka.

„Það hefði auðvitað verið mjög gott að fara í þessa innviðauppbyggingu í niðursveiflunni fyrir tíu árum en þá hafði bara enginn efni á því. Síðan kom uppsveiflan og þá hélt hið opinbera að sér höndum en núna eru flottar aðstæður að myndast. Hagkerfið hefur verið svelt af innviðafjárfestingu í uppsveiflu síðustu ára. Fjárhagsstaða ríkis og sveitarfélaga er miklu betri en hún var áður en uppsveiflan hófst. Ég held að opinberar framkvæmdir á þessum tímapunkti muni milda niðursveifluna og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Þegar menn heyra tölur, til dæmis um íbúðauppbyggingu, þá er eðlilegt að þeir hafi áhyggjur en við hjá Samtökum iðnaðarins höfum ekki áhyggjur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .