Landsvirkjun hagnaðist um 10,8 milljarða króna í fyrra, sem er mesti hagnaður í sex ár. Á sama tíma hafa skuldirnar lækkað um 107 milljarða. Hörður segir að fyrirtækið sé á ákveðinni vegferð. Eftir að tímabili mikilla fjárfestinga lauk árið 2008 hafi þurft að endurskipuleggja fjárhaginn og auka arðsemina.

„Við erum á miðri þeirri vegferð en teljum okkur þegar hafa náð ákveðnum árangri og fengið viðurkenningu fyrir hann," segir Hörður. „Endurspeglast það meðal annars í því að Standard & Poor's hefur fært fyrirtækið í fjárfestingaflokk, Moody‘s endurskoðar lánshæfismatið með hækkun í huga og að nú erum við að fá stór lán á hagstæðum kjörum án ríkisábyrgðar bæði frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) og Japan (JBIC/NEXI).

Spurður hvort Landsvirkjun stefni að því að starfa alfarið án ríkisábyrgðar svarar Hörður:  „Við teldum það mjög æskilegt en það tekur tíma því þetta eru gömul lán sem greiðast niður á löngum tíma. Ég sé fyrir mér að ríkisábyrgðirnar muni hverfa á um það bil tíu árum. Lánin okkar munu lækka hraðar heldur en þau lán sem við erum að bæta við."

Hörður segir að óðum fari að styttast í að Landsvirkjun geti farið að borga eigendum sínum, íslenska ríkinu, umtalsverðar arðgreiðslur.

„Við stefnum mjög eindregið í þá átt. Þegar við þurfum ekki að borga niður skuldir frekar,  þá geta arðgreiðslurnar orðið það háar að þær munu hafa umtalsverð áhrif á lífskjörin í landinu. Ef við horfum á þá rúmu 100 milljarða sem farið hafa í niðurgreiðslu lána og að við fjárfestum á sama tíma fyrir 90 milljarða þá er það fjármunamyndun upp á 190 milljarða. Þegar við hættum að þjóna lánadrottnum og getum farið að þjóna eigandanum þá eru þetta fjárhæðir sem geta haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Þegar fram líða stundir tel ég að fyrirtækið geti hæglega greitt arð upp á 10 til 20 milljarða króna á ári. Ég tel að arðgreiðslurnar byrji að aukast eftir tvö til þrjú ár."

Nánar er rætt við Hörð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .