State Street Global Advisors, ráðgjafa- og eignastýringarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Boston í Bandaríkjunum, hefur fjárfest í Guide to Iceland fyrir 20 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar um 2,2 milljörðum króna. Fjárfestingin verður meðal annars notuð til að styrkja starfsemi Guide to Iceland og til að fjármagna sókn fyrirtækisins á erlenda markaði.

Guide to Iceland var stofnað árið 2012 og er þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið sækir sér fjármagn erlendis frá. Davíð Ólafur Ingimarsson, aðstoðarforstjóri Guide to Iceland, segir fjárfestinguna marka ákveðin tímamót. „Þessi fjárfesting gerir okkur kleift að halda áfram að markaðssetja Ísland sem áfangastað. Á sama tíma er mjög spennandi að geta sannreynt viðskiptalíkan og hugbúnað okkar á erlendum mörkuðum í samvinnu við alþjóðlegann fjárfesti. Starfsfólk Guide to Iceland hefur unnið ötullega að þessu markmiði og fjárfesting State Street Global Advisors endurspeglar afraksturs þeirrar vinnu. Með íslensku hugviti hefur okkur tekist að þróa heimsklassa hugbúnað sem við nýtum til að sækja inn á erlenda markaði. Við erum metnaðarfull og stefnum á að margfalda stærð fyrirtækisins á komandi árum," segir hann.

Guide to Iceland starfrækir stærsta ferðaþjónustumarkaðstorg landsins, en á guidetoiceland.is koma yfir 500 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki saman og veita ferðamönnum þjónustu á meðan Íslandsdvöl þeirra stendur. Á árinu 2017 mældist Guide to Iceland þriðja hraðast vaxandi fyrirtæki Evrópu, Afríku og Mið-Austurlanda í alþjóðlegu Deloitte Technology Fast 500 keppninni.