Frestur ráðherra til að úrskurða um friðlýsingu á hluta af Landssímareitnum rennur út innan skamms. Byggja á glæsilegt hótel á reitnum og því eru miklir hagsmunir í húfi. Tjón vegna friðlýsingar mun nema um tveimur milljörðum króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur frest til 18. febrúar til að taka afstöðu til tillögu Minjastofnunar Íslands um friðun á hluta af Landssímareitnum. Byggingarreiturinn er í eigu Lindarvatns, sem er félag í eigu Dalsness ehf. og Icelandair Group hf.

Framkvæmdir á reitnum hófust vorið 2018 en þar á að rísa hótel, sem rekið verður undir merkjum „ Curio by Hilton “. Enn fremur er gert ráð fyrir veitingastöðum, íbúðum og verslunum á reitnum. Lindarvatn hefur samið við verktakafyrirtækið ÞG Verk um framkvæmdir.

Víkurgarður, einnig nefndur Fógetagarðurinn, er gamall kirkjugarður og þess vegna hefur nokkur styr staðið um framkvæmdirnar. Hópur, sem kallar sig Varðmenn Víkurgarðs, hefur mótmælt framkvæmdunum og þá hefur Minjastofnun lagst mjög eindregið gegn þeim. Aftur á móti hefur Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur, sem stjórnaði fornleifauppgreftri á svæðinu á árunum 2016 og 2017, sagt að öllum fornminjum á svæðinu hafi verið raskað fyrir löngu, þar að auki sé búið að fjarlægja þær og því sé ekki ástæða til óttast um menningarverðmæti núna. Forsvarsmenn Lindarvatns hafa ítrekað sagt að engin bygging verði reist í Víkurgarði .

Steypuframkvæmdir voru að hefjast þegar Minjastofnun tók ákvörðun um skyndifriðun. Samkvæmt lögum um menningarminjar gildir skyndifriðun í allt að sex vikur. Endanlegt úrskurðarvald um friðlýsingu er hins vegar hjá ráðherra, eins og áður sagði.

Bótaskylda ríkisins

Borgarlögmaður hefur gert margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Minjastofnunar og bendir meðal annars á að skyndifriðun eða eftir atvikum friðlýsing geti leitt til bótaskyldu ríkisins, þar sem um verðmæta byggingarlóð er að ræða á besta stað í hjarta miðborgarinnar. Samkvæmt 53. grein laga um menningarminjar er kveðið á um skaðabætur vegna friðlýsingar. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um framkvæmd eignarnáms.

Ef til friðlýsingar kemur mun Lindarvatn fara fram á skaðabætur, sem munu taka mið af töfum á framkvæmdum því líklega mun þurfa að breyta deiliskipulagi. Enn fremur mun skaðabótakrafan taka til breytinga á hönnun mannvirkja, sem og kostnaði sem hlýst af því að minnka hótelið en friðlýsingarsvæðið nær til um 2.000 fermetra. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er fermetraverð á hóteli í rekstri á þessum stað í kringum ein milljón króna. Áætla má að framlegðin sé um 15% þannig að beinn kostnaður vegna þessa er 300 milljónir. Friðlýsing á svæðinu gæti líka sett leigusamning við Icelandair Group í uppnám. Erfitt er að leggja mat á hugsanlega skaðabótakröfu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun tjón vegna friðlýsingar að minnsta kosti nema um tveimur milljörðum króna.

Í lok árs 2015 ákvað Minjastofnun að skyndifriða hafnargarða við Austurbakka í miðborg Reykjavíkur. Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra voru málefni Minjastofnunar færð undir forsætisráðuneytið. Sigmundur Davíð vék hins vegar frá hafnargarðsmálinu og Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, var settur forsætisráðherra í málinu. Staðfesti hún friðlýsinguna. Kostnaður við að færa hafnargarðinn nam um 500 milljónum króna.

Framkvæmdaaðilar fóru síðan fram á 630 milljóna króna skaðabætur. Enn á eftir útkljá þá deilu og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er beðið eftir áliti dómkvadds matsmanns.

Landssímareitur
Landssímareitur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .