Félög Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar áttu samtals um þrjá milljarða króna í lok árs 2009. Klapparás ehf., félag Árna, átti eignir upp á 1,7 milljarða króna á þeim tíma og Vattarnes ehf., félag Hallbjörns, átti eignir sem metnar voru á rúmlega 1,3 milljarða króna. Bæði félögin voru nánast skuldlaus á sama tíma. Því er ljóst að viðskiptafélagarnir Árni og Hallbjörn hafa mikla fjárfestingargetu. Þetta kemur fram í ársreikningum félaga þeirra fyrir árið 2009.

Þeir félagar fara fyrir hópi fjárfesta sem samþykkti að kaupa 35,3% hlut í smásölurisanum Högum í febrúar síðastliðnum á 4,1 milljarð króna. Til viðbótar fær hópurinn kauprétt á 10% útgefinna hlutabréfa til viðbótar á hærra verði. Framlag Árna og Hallbjarnar til þeirra viðskipta er í mesta lagi tæpur 1 milljarður króna, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.