Samkvæmt nýjasta lista Forbes, yfir auðugustu einstaklinga heims, er Bill Gates metinn á 86 milljarða dala.

Milljarðamæringar á listanum eru í dag 2043 talsins, en þeim hefur fjölgað um 13%.

Á eftir Gates er góðvinur hans, Warren Buffett, sem metinn er á 75,6 milljarða dala. Á eftir Buffet er svo Jeff Bezos, stofnandi Amazon en hann er metinn á ríflega 72,8 milljarða dala.

Donald Trump, sem var áður í 220 sæti, hefur nú fallið niður í 544 sæti. Auður hans er því metinn á 3,5 milljarða.

Samkvæmt listanum eru 183 milljarðamæringar úr tækniheiminum, en auður þeirra er samanlagt metinn á ríflega 1.000 milljarða dala.