Setja þarf 8 til 10 milljarða króna í viðhald og uppbyggingu flugbrauta ásamt 10 til 12 milljörðum vegna stækkunar flugstöðvar og nýrra manvirkja. Þetta sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll. Fram kom á nýsköpunarþingi í Reykjanesbæ á fimmtudaginn að spáð er að árið 2023 muni sex milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll miðað við 2,38 milljónir farþega í fyrra. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Fram kemur að mestar líkur séu á að bætt verði við suðurenda flugstöðvarinnar en einnig er verið að skoða byggingu nýrrar flugstöðvar. Björn Óli sagði einnig að áætlað væri að taka í notkun gamla flugstöð varnarliðsins og yrði sú bygging notuð til að þjónusta einkaflugvélar, hervélar og aðrar flugvélar sem ekki tengjast áætlunarferðum flugfélaga.