Samskiptaforritið WhatsApp er aðeins orðið 7 ára gamalt en hefur sannarlega rutt sér rúms í heimi tæknifyrirtækja. Heill milljarður manna eru nú skráðir notendur í þjónustu WhatsApp.

Forritið, sem er í eigu Facebook, hefur lýst því yfir að meira en 42 milljarðar skilaboða væru sendir út daglega, á sama tíma og 250 milljón myndbönd eru send milli tækja. Þrátt fyrir þessa góðu velgengni WhatsApp hafa greiningaraðilar verið sammála um að það séu stórir markaðir sem WhatsApp er að missa af.

Í Kína, Japan og Suður-Kóreu, til að mynda, eru önnur forrit vinsæl, meðan WhatsApp hefur nánast enga markaðshlutdeild. WeChat er vinsælt í Kína, en þar eru 500 milljón manns skráðir notendur í forritinu. Line er þá vinsælt í Japan, Taílandi og Malasíu, meðan Kakao Talk er hvað vinsælast í Suður-Kóreu.

Þrátt fyrir að hafa litla sem enga markaðshlutdeild á þessum sérstöku mörkuðum hefur WhatsApp leiðandi markaðsstöðu þegar litið er til alþjóðlegrar hlutdeildar, sem þýðir að leiðandi miðlar í fyrrnefndum Asíulöndum eru mögulega tiltölulega einangraðir til langs tíma litið.