Stjórnvöld í Norður-Kóreu greindu fyrir stundu frá því að um það bil 3,5 milljón verkamenn, flokksmeðlimir og hermenn í landinu hafi nú óskað eftir því að skrá sig, eða endurskrá sig, í Norður kóreska herinn. Segja þau að fólkið vilji með þessu berjast gegn nýlegum efnahagsþvingunum sem samþykktar voru af Sameinuðu þjóðunum sem og hótunum Bandaríkjamanna.

Fyrr í þessari viku hótuðu stjórnvöld í Norður-Kóreu að senda flugskeyti að kyrrahafseyjunni Guam, þar sem Bandaríkjamenn eru meðal annars með herstöð og geyma langdrægar sprengjuflugvélar.

Í ágúst 2015, var greint frá því að 1 milljón íbúa landsins hefðu óskað eftir því að skrá sig í herinn eftir að sprengja sprakk á hlutlausu svæði milli Kóreuríkjanna tveggja.