Minna var fjárfest í sprotafyrirtækjum á nýliðnu ári en síðustu tvö ár á undan. Aftur á móti voru fjárfestingarnar fleiri, sem gefur til kynna að fjárfest sé í mörgum litlum fyrirtækjum á fyrstu stigum. Í gögnum Northstack , vef sem fjallar um sprotafyrirtæki og nýsköpun á Íslandi, kemur fram að fjárfesting í nýsköpun á Íslandi var minni á síðasta ári en árið áður og árið 2015, sem var metár í fjárfestingu í nýsköpun. Fjárfest var fyrir tæplega 35,5 milljónir dollara árið 2017, borið saman við 56,6 milljónir 2016 og 189,2 milljónir 2015.

Tölurnar eru byggðar á gögnum sem fjárfestar senda Northstack og því einhverjar fjárfestingar líklega ekki skráðar. Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum í ár eru því flestar litlar. 85% þeirra eru undir 2,5 milljónum dollara, um 250 milljónum króna, en um helmingur fjármagns sem fjárfest var var af þeirri stærðargráðu eða minna. 2016 var hlutfallið 19% og 6% 2015. Þá var minna um fjárfestingu erlendra fjárfesta á Íslandi en undanfarin ár. Árið 2017 fjárfestu erlendir fjárfestar í fjórum fyrirtækjum en fjárfestu í átta árið 2016 og sex árið 2015. Investa, sprotasjóður sem fjárfestir mjög snemma í sprotafyrirtækjum, var virkasta fjárfestingafélagið á nýliðnu ári. Aldrei fleiri fjárfestingar Á hinn bóginn hefur aldrei verið fjárfest í fleiri fyrirtækjum en í fyrra. Fjárfestingar í fyrra voru 22, 19 árið 2016, 17 árið 2015.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, ritstjóri Northstack, segir að þrátt fyrir minni fjárfestingu sé mikið um að vera í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi. „Það var fjárfest mikið í sprotafyrirtækjum snemma í ferlinu. 2017 virðist hafa verið ár fræfjár (e. seed investment) sem segir okkur að það eru fleiri fyrirtæki að verða til sem eru nógu góð til að fá fjármagn og mögulega líka meiri aðgangur að fjármagni. Á sama tíma virðast fyrirtækin sem eru lengra komin ekki fá fjármagn. Annaðhvort þurfa þau það ekki eða það er ekki nóg til af lengra komnum fyrirtækjum til að fjárfesta í,“ segir Kristinn Árni.

Hann segir suma vilja kenna fjármögnunarumhverfinu um þessa þróun meðan aðrir benda á erfiðleika íslenskra fyrirtækja við að ná nógu miklum vexti til að geta komist í útrás og hafa því ekki þörf fyrir verulega fjármögnun.

„Það eru engir sjóðir á Íslandi sem setja 20 milljónir dollara í eitt verkefni – allavega engir af þessum sprotasjóðum því þeir eru kannski 40 milljóna dollara sjóðir í heildina. Á sama tíma eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem ná í mjög mikla peninga, til dæmis WuXi NextCODE, sem er þó „bara“ með 70 manna þróunardeild á Íslandi, en fyrirtækið fékk 240 milljóna dollara fjárfestingu 2017,“ segir Kristinn Árni. Sú fjárfesting er ekki með í tölum fyrir árið 2017, því fyrirtækið er á mörkum þess að vera íslenskt. Þurfum tíma til að sjá taktinn Kristinn Árni bendir jafnframt á að íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hafi gegnum tíðina gengið ágætlega að laða til sín fjárfesta.

„Plain Vanilla fékk 40 milljónir dollara í heildina, Carbon Recycling 45 milljónir 2016 og CCP 30 milljónir 2016. Þannig að þetta er alveg hægt. Spurningin er líka hvort þrjár til fjórar 20 milljóna dollara fjárfestingar á tveimur til þremur árum sé bara sá taktur sem við munum sjá,“ segir Kristinn Árni. Þá segir hann minni fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi líklega benda til að færri fyrirtæki séu nú á þeim stað að sækja í hærri fjárhæðir, því erlendir fjárfestar séu aðallega í stórum fjárfestingum. „Það er samt gaman að sjá að tvö fyrirtæki á fræstigi fengu erlenda fjárfestingu. Það hefur ekki verið raunin hingað til.“

Hann segir 2018 hins vegar hefjast af krafti, en nú þegar hefur verið tilkynnt um þrjár fjárfestingar í sprotafyrirtækjum fyrir samtals um 26 milljónir dollara. „Ég á svo frekar von á að það verði tilkynnt um meira á næstunni og að á árinu förum við líklega yfir fjárfestingar bæði síðasta og þarsíðasta árs,“ segir Kristinn Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .