Vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max véla mun sætaframboð Icelandair dragast saman um 2% til 15. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group . Ennfremur segir að fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar séu óviss á þessu stigi, meðal annars vegna þess að ekki liggi fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fáist bættur frá framleiðanda.

„Þann 10. apríl sl tilkynnti Icelandair breytingar á flugáætlun sinni til að bregðast við kyrrsetningu Boeing 737 MAX flugvéla fram í miðjan júní. Útlit er fyrir að kyrrsetning vélanna muni vara lengur og hefur félagið því uppfært flugáætlun sína fram til 15.júlí ," segir tilkynningunni.

„Til þess að lágmarka áhrif kyrrsetningarinnar á farþega gekk félagið frá leigu á þremur flugvélum sem tilkynnt var um í apríl og verða þær í rekstri út septembermánuð. Um er að ræða tvær 262 sæta Boeing 767 breiðþotur og eina Boeing 757-200 vél sem er 184 sæta. Til samanburðar taka Boeing 737 MAX vélarnar 160-178 farþega í sæti.

Við þessar breytingar dregst sætaframboð tímabilsins saman um tæplega 2%. Lögð er áhersla á að tryggja sem minnst rask á mörkuðunum til og frá Íslandi. Vinna varðandi þessar breytingar mun hefjast eftir helgi og munu þjónustufulltrúar Icelandair hafa samband við viðkomandi farþega."