Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO, segir að kominn sé tími á aðgerðir hjá Reykjavíkurborg. Þétting byggðar leysi ekki vandann enda íbúðirnar of stórar og dýrar fyrir ungt fólk.

Sigurður segir að hjá BYKO sé fyrirtækjamarkaðurinn ívíð stærri en einstaklingsmarkaðurinn, eða um 55-60% í viðskiptum við verktaka og önnur fyrirtæki. Aðspurður segir hann að þeir hafi byrjað að merkja það árið 2012 að byggingarmarkaðurinn væri að taka við sér.

Sama kynningin í mörg ár hjá borgarstjóra

„Í upphafi dró ferðaþjónustan vöxtinn áfram, en einstaklingarnir hafa verið að koma inn af meiri þunga síðustu árin. Hann er varkárari og er ég viss um að við höfum lært af hruninu, enda er fólk að fjármagna breytingar með eigin fé í meiri mæli, ekki lánsfé,“ segir Sigurður en hann segist hafa sterkar skoðanir á ástandinu á byggingarmarkaði.

„Já, á árunum 2009 til 2014 voru byggðar um 900 til 950 íbúðir á ári, en þörfin var hins vegar um 1.500 til 1.800 íbúðir svo á þessum tíma skapaðist mikil uppsöfnuð þörf og uppsöfnuð eftirspurn. Svo þessi staða sem við erum í núna var alveg fyrirsjáanleg og átti ekki að koma neinum á óvart.“

Sigurður segir að sveitarfélögin hafi ekki staðið sig í stykkinu. „Það er galið hvernig haldið var á hlutunum þar, þá í Reykjavík fyrst og fremst. Mér finnst ég hafa séð sömu kynninguna hjá borgarstjóranum í allmörg ár,“ segir Sigurður ómyrkur í máli.

Ekki verið að byggja litlar íbúðir

„Nú er kominn tími til að hætta að tala og fara að framkvæma. Eins og ég hef rætt er nauðsynlegt að við hlustum á væntingar og þarfir viðskiptavina okkar, sem margir eru fyrstu kaupendur. Nú er mikið í umræðunni að það vanti litlar íbúðir, en það er ekkert verið að byggja þær.

Hér á Reykjavíkursvæðinu er verið að þétta byggð, en ungt fólk er ekkert að fara inn í þéttingarreitina, vegna þess að þetta eru þannig íbúðir að það mun ekki ráða við þær, bæði vegna kostnaðar og stærðar. Mér hefði þótt mun skynsamlegra að fara einhverja blandaða leið heldur en að einblína á að þétta byggð.“

Skipulagssviðið of svifaseint

Enn séu þó regluverk, sem bæti ofan á hátt vaxtastig miklum óþarfa fjármagnskostnaði að hans mati. „Ég heyri frá okkar viðskiptavinum að kerfið sé allt of svifaseint hjá til að mynda skipulagssviðinu, en það geta verið frá sex og upp í tíu mánuður frá því að verktaki kaupir lóð og leggur út fjármagnið þangað til að hann fær grafarleyfi, þannig að fjármagnið liggur dautt á meðan,“ bendir Sigurður á.

„Skipulagsyfirvöld setja allt of stífar skorður um að allt, hönnunin og teikningar, þurfi að vera klárt áður en menn byrja, svo þarna á sér stað sóun. Þú gætir alveg verið búinn að klára að hanna sökkulinn og það ætti að vera hægt að gefa leyfi á gröft fyrir honum áður en restin af húsinu er kláruð. Þarna gætum við dregið lærdóm af fyrirkomulaginu í Noregi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .