Fjármálastjórar stærstu fyrirtækja landsins eru almennt bjartsýnir um þróun rekstrarumhverfis fyrirtækja næstu tólf mánuðina. Þó hefur dregið nokkuð úr bjartsýni þeirra á undanförnu ári. Þetta er meginniðurstaða könnunar ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

Almennt eru fjármálastjórar bjartsýnir á eigin rekstur. Flest fyrirtæki sjá fram á aukningu í tekjum og stefna á fjárfestingar, lækkun kostnaðar og stækkun með innri vexti á komandi mánuðum. Fjármálastjórar eru ekki jafn bjartsýnir um hagvöxt og fyrir ári. Gengisþróun íslensku krónunnar er áfram stærsti einstaki áhættuþátturinn í rekstri fyrirtækja, en fleiri fjármálastjórar hafa áhyggjur af frekari styrkingu. Meirihluti þeirra telur að krónan muni halda áfram að styrkjast næsta árið.

Mörgum verður gætni að gagni

Meirihluti fjármálastjóra gerir ráð fyrir aukningu í tekjum og rekstrarhagnaði næstu tólf mánuðina, þó að hlutfall þeirra hafi lækkað frá síðustu könnun. Áfram verður mest áhersla lögð á lækkun kostnaðar og stækkun með innri vexti. Meirihluti fyrirtækja stefnir á fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum. Í langflestum tilvikum munu ráðningar nýrra starfsmanna haldast óbreyttar eða aukast lítillega.

Fjármálastjórar líta ekki jafn björtum augum á tækifæri til vaxtar eins og fyrir ári, þó að fjárhagshorfur hafi batnað. Að­ eins fimmtungur fjármálastjóra telur að nú sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi.

Fjórir af hverjum fimm fjármálastjórum nefna gengisþróun krónunnar sem helsta áhættu­ þátt í rekstri sínum en þetta hlutfall hefur aldrei mælst hærra. Tveir þriðju svarenda telja að krónan muni halda áfram að styrkjast næstu sex mánuðina og telur þriðjungur líklegt að fyrirtæki sitt muni beita formlegum áhættuvörnum gegn gengissveiflum.

Fyrir ári töldu 72% fjármálastjóra að hagvöxtur á Íslandi myndi aukast á næstu tveimur árum. Nú eru 46% þeirrar skoðunar. Fjármálastjórar eru þó bjartsýnni á þróun hlutabréfaverðs.

Átta af hverjum tíu fyrirtækjum stefna á að halda skuldsetningu óbreyttri eða draga úr henni. Meirihluti fjármálastjóra telur framboð af nýju lánsfé mikið, þó að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu of háir og lántökukostnaður of dýr. Aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfjármagni hefur batnað samkvæmt könnuninni, enda fjármagnshöft á bak og burt, en um helmingur fjármálastjóra telur afnám hafta hafa jákvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækis. Engar áætlanir eru uppi hjá 84% fyrirtækja um nýjar fjárfestingar erlendis eða erlendar lántökur á næstu tólf mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .