*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Innlent 6. febrúar 2018 10:59

Minni fjölgun í Reykjavík en utan

Bæjarstjóri Kópavogs segir ástæðu mikils vaxtar að bærinn átti lóðir á lager. Landsbyggðin óx hraðar en höfuðborgin.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið minnst fjölgun á síðustu 5 árum í Reykjavík, eða 4,05% en meðalfjölgunin á svæðinu nam 6,5% að því er Fréttablaðið greinir frá. 

Af alls 348.580 einstaklingum bjuggu í árslok 2017 222.590 á höfuðborgarsvæðinu að því er Hagstofan greinir frá. Það gerir um 63,86%, sem er eilítil lækkun frá árinu 2013 þegar hlutfallið var 64,10%, en fjölgunin á landsbyggðinni nam 7,05% á þessum fimm árum.

Á síðustu fimm árum hefur mesta fjölgunin verið í Mosfellsbæ, eða 16,17%, Kópavogi eða 11,36% og Garðabæ eða 10,80%. Íbúum kjósarhrepps sem stundum er talinn til höfuðborgarsvæðisins því er í Suðvesturkjördæmi fjölgaði ekkert á tímabilinu og standa þeir í 220.

En þess utan hefur jafnvel verið meiri fjölgun á Seltjarnarnesi, eða 4,79% heldur en í Reykjavík, en fjölgunin í Hafnarfirði á timabilinu nemur svo 7,64%.

Skortur á lóðum og Airbnb ástæða minni fjölgunar

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðismanna segir ástæðu minni fjölgunar í Reykjavík en hinum sveitarfélögum vera skort á lóðum og útleigu Airbnb íbúða sem hafi meðal annars valdið fækkun íbúa í miðbænum. „Það hefur ekki verið hægt fyrir Reykvíking að fá lóð til að byggja sitt hús síðustu ár í Reykjavík nema í gegnum fasteignabrask eftirhrunsáranna og þá á þéttingarsvæðum,“ segir Halldór.

Ármann Kr. Ólafsson oddviti flokksins og bæjarstjóri í Kópavogi segir ástæðu mikillar fjölgunar í bænum framsýni bæjaryfirvalda eftir hrun. „Við töldum eftir hrun að það yrði skortur á íbúðum og áttum lóðir á lager. Því var farið í það að ræða við verktaka.“