Seðlabanki Íslands hefur tekið saman greiningu á mögulegu útflæði við losun fjármagnshafta . Bankinn hefur ekki teljandi áhyggjur af verulegu útflæði og tekur þar til ýmsar ástæður.

Við losun fjármagnshafta má vænta útflæðis fjármagns vegna aukinnar beinnar fjárfestingar fyrirtækja og sakir viðleitni einstaklinga og fyrirtækja til að dreifa áhættu í eignasöfnum. Á hinn bóginn draga umtalsverður vaxtamunur gagnvart útlöndum, þróttmeira efnahagslíf en í viðskiptalöndunum, lítil verðbólga og fjármagnsinnstreymi vegna þjónustuviðskipta með tilheyrandigengishækkun krónunnar úr hættu á umtalsverðu fjármagnsútflæði við losun haftanna,

segir í greiningu bankans.

Í ritinu kemur fram að til að meta áhrif hugsanlegs fjármagnsútflæðis á þjóðarbúið, þá sérstaklega greiðslujöfnuð og gjaldeyrisforða Seðlabankans, hafi verið gerð greining á þeim eignum sem líklegast er að verði gengið á ef fyrirtæki og heimili kjósa að nýta auknar heimildir sínar til erlendra fjárfestinga.

Greiningin byggir á mismunandi forsendum um vilja einstaklinga og fyrirtækja til áhættudreifingar erlendis og væntingum þeirra um þróun á gjaldeyris- og fjármálamörkuðum. Bendir hún til þess að þjóðarbúið þoli töluvert fjármagnsútflæði í ljósi stærðar gjaldeyrisforðans og áframhaldandi innstreymis gjaldeyris á komandi árum. Álagspróf benda til þess að lausafjárhlutfall viðskiptabankanna verði áfram yfir reglubundnu lágmarki Seðlabankans.

Ef hins vegar fjármagnsútflæði verður í líkingu við þá sviðsmynd sem gerir ráð fyrir mestu útflæði yrði álagið á gjaldeyrismarkað, fjármálafyrirtæki og þjóðarbúskapinn það mikið að varhugavert yrði að losa frekar um höftin undir eins. Sú sviðsmynd er þó ósennileg að mati bankans.

Hægt er að lesa greininguna í heild sinni með því að smella hér .