Einungis ein af sjö stærstu lögmannsstofum landsins, Lex, bætti afkomu sína á síðasta ári miðað við árið á undan. Minni umsvif í kringum eftirmála hrunsins, þar með talið frá erlendum kröfuhöfum bankanna, er líkleg ástæða þess að hagnaður Logos, Landslaga, BBA Legal, Juris, Markarinnar og Advel dróst saman á síðasta ári að því er Fréttablaðið greinir frá.

Dróst samanlagður hagnaður lögmannsstofanna sjö saman um 580 milljónir króna á milli ára, það er 32%, en í heildina nam hann 1.233 milljónum á árinu 2016.

Logos og BBA Legal misstu mest

Mest dróst hagnaðurinn saman hjá Logos, stærstu lögmannstofu landsins, eða um 254 milljónir króna, sem og hjá BBA Legal en hagnaður þess félags dróst saman 236 milljónir. Báðar hafa þær starfað mikið fyrir erlenda fjárfesta og kröfuhafa sem hafa átt umtalsverða hagsmuni hérlendis.

Drógust tekjur allra stofanna, nema Landslaga, drógust jafnframt saman á milli áranna, en samanlagðar námu þær 5.918 milljónum króna á síðasta ári. Árið þar á undan námu þær samanlagt 6.825 milljónum króna, svo samdrátturinn í heildina nemur 13%.

Meðan erlendu kröfuhafar bankanna létu stofurnar gæta hagsmuna sinna greiddu þeir milli 500 og 600 evrur í tímakaup til helstu eigenda stofanna, sem var á sínum tíma vegna stöðu gengisins um tvöfaldt á við það sem innlendir viðskiptavinir greiddu.