Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Nasdaq Iceland í mars námu 72.919 milljónum eða 3.170 milljónum á dag. Það er 26% lækkun frá fyrri mánuði, en í febrúar viðskipti með hlutabréf 4.262 milljónum á dag. Þetta er þó 72% hækkun á milli ára, en viðskipti í mars 2016, námu 1.845 milljónum á dag.

Mest voru viðskipti með bréf Reita fasteignafélags, 11.116 milljónir. Næst mest voru viðskiptin með bréf Símans, 8.521 milljón og þar á eftir með bréf Marel, 7.385 milljónir. Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,3% milli mánaða og stendur í 1.719 stigum.

Arion með stærsta skerfinn

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina, 25,4%, Landsbankinn með 16,7% (23,4% á árinu), og Fossar markaðir með 14,3%.

Í lok mars voru hlutabréf 20 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi. Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 1.019 milljörðum króna, samanborið við 1.011 milljarð í febrúar.

Talsverð aukning í skuldabréfaviðskiptum

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 223 milljörðum króna í mars sem samsvarar 9,7 milljarða veltu á dag. Það er því 128% hækkun frá fyrri mánuði, þegar dagleg velta nam 4,3 milljörðum á dag, en 57% hækkun frá fyrra ári.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 179,7 milljörðum, viðskipti með bankabréf námu 10,2 milljörðum, og viðskipti með íbúðabréf námu 8,7 milljörðum.