Í júní lækkaði svokallaður leiðandi hagvísir Analytica um 0,3% og að gildin fyrir mars-maí á næsta ári voru endurskoðuð niðurávið. Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum, og er hún reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferlisins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu.

Bendir hagvísirinn til þess að farið sé að hægja á hagvextinum, og gæti landsframleiðsla dregist saman á milli fyrsta og annars ársfjórðungs næsta árs, að teknu tilliti til áhrifa árstíðarsveiflu. Áfram gæti þó hagvöxtur á ársgrunni orðið yfir langtímaleitni.

Hafa þrír af sex undirliðum sem notaðir eru til að reikna vísitöluna nú lækkað frá því í maí. Mælist samdráttur í ferðamannafjölda, eftir að leiðrétt er fyrir áhrifum árstíðarsveiflu, og lækkun væntingavísitölu en þetta tvennt hefur mest áhrif til lækkunar hagvísisins.

Með lækkuninni tekur hagvísirinn nú gildið 99,5, sem gefur vísbendingu um framleiðslu eftir sex mánuði, það er í desember 2017, en hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.

„Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup,“ segir í fréttatilkynningu Analytica.