Vonbrigði voru með sölutölur á veitingastöðum McDonalds á öðrum ársfjórðungi. Lækkuðu tekjur fyrirtækisins um 9% auk þess sem kostnaður vegna flutnings höfuðstöðva fyrirtækisins höfðu áhrif. Niðurstöðurnar voru lægri en markaðir höfðu vænst og lækkuðu hlutabréf fyrirtækisins um 4% í kjölfarið.

Fyrstu merkin um efnahagslægð?

McDonalds er stærsta veitingahúsafyrirtækið sem tilkynnt hefur um minnkandi sölu og umferð í gegnum veitingahús sín, en það er langt frá því það eina. Einnig hafa bæði Starbucks og móðurfyrirtæki Dunkin'Donuts tilkynnt um minnkandi umferð á sínum veitingahúsum. Á hinn bóginn hefur orðið aukning í heimsendingum á pizzum, með fjölgun þeirra sem panta mat heim í stað þess að fara út að borða.

Greinandi hjá Stifel Nicolaus lækkaði mat sitt á virði þónokkurra veitingahúsafyrirtækja og spáir hann því að efnahagslægð verði í Bandaríkjunum snemma á næsta ári. Er það byggt á því að minnkandi eftirspurn í veitingaiðnaðinum sé ein fyrstu merkin um efnahagslægð, því það að fara út að borða sé það fyrsta sem fólk minnki þegar óvissan um framtíðina eykst.

Morgunverður kemur McDonalds til bjargar

„Ég held það sé meiri óvissa... og þegar neytendur eru óvissir, þá tekur varkárnin við,“ sagði Steve Eastbrook forstjóri fyrirtækisins og viðurkenndi að eftirspurn neytenda sé að dragast saman.

Ein þeirra aðgerða sem McDonalds hefur gripið til, til að mæta minnkandi tekjum hefur verið að bjóða upp á morgunverðarrétti fyrirtækisins allan daginn sem víðast. Það hafi leitt til þess að fyrirtæki hafi eytt meira í máltíðum sínum þar sem fólk hafi bætt við sig morgunverðarréttum.