Greining Íslandsbanka bendir á að þrátt fyrir umtalsverða fjölgun ferðamanna á fyrstu þremur fjórðungum ársins hafi afgangur af þjónustujöfnuði nánast verið sá sami í ár og á sama tíma í fyrra.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag verður töluvert minni viðskiptaafgangur í ár en í fyrra, því vöruskiptajöfnuðurinn minnkaði talsvert þó þjónustujöfnuðurinn hafi staðið nokkurn veginn í stað. Telur bankinn ástæðuna vera annars vegar minni gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni, í krónum talið, og hins vegar mikil aukning í neyslu Íslendinga á erlendri grundu.

Bendir greiningardeildin á að þriðja ársfjórðungi hafi þjónustuafgangurinn minnkað um 5 milljarða króna á milli ára, en á sama tíma hafi erlendum ferðamönnum fjölgað um 16% milli ára. Þetta sé að gerast á háannatíma ferðaþjónustunnar, það er í júlí, ágúst og september.

Nálega þriðjungsfjölgun ferðamanna

Ef hins vegar er horft til fyrstu níu mánuði ársins er aukning í þjónustujöfnuði, en þó einungis um 4 milljarða króna, en á sama tíma fjölgaði ferðamönnum um 28% bendir Greining Íslandsbanka á.

Segir bankinn ljóst að hver erlendur ferðamaður skili minni tekjum í ár en í fyrra, sem sjáist jafnframt í að heimsóknir þeirra eru að jafnaði styttri en áður miðað við tölur um gistinætur. Einnig virðist þeir spara við sig skoðunarferðir og málsverði á veitingahúsum.

Á sama tíma hafi neysla Íslendinga erlendis aukist, til dæmis hafi útgjöld tengd ferðalögum og farþegaflugi aukist um 16% milli ára miðað við fyrstu 9 mánuði ársins. Það passi við að fjölgun brottfara Íslendinga, sem einnig var 16%.

Á sama tíma hafi vöruskiptahallinn aukist verulega, það er úr 88 milljörðum króna í 128 milljarða fyrstu 9 mánuði hvors árs fyrir sig. Telur bankinn mögulegt að viðskiptaafgangur ársins reynist minni en þau 4,8% sem þeir hafi spáð.