Á Íslandi er minnst atvinnuleysi í samanburði við Evrópusambandslöndin og Noreg.

Hagstofa ESB, Eurostat, birti atvinnuleysistölur í vikunni sem leið. Stofnunin birtir tölur Evrópusambandslandanna og EES landanna, utan Sviss.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi á Íslandi er 3,6% samkvæmt Eurostat. Samkvæmt Hagstofu Íslands var atvinnuleysið hins vegar 2,3%, þegar búið er að leiðrétta það fyrir árstíð. Mismunandi mæliaðferðir skýra líklega muninn.

Næst minnst er atvinnuleysið í Þýsklandi eða 4,5%, rétt eins og í Tékklandi. Í Noregi var það 4,6% í nóvember en tölur fyrir desember hafa ekki verið birtar.

Mest atvinnuleysi mælist í Grikklandi en nýjustu tölur eru frá október. Þá mældist það 24,5%. Á Spáni eru 20,8% án vinnu í desember. Þriðja mest er atvinnuleysið í Króatíu og mælist það 16,5%.

Að meðaltali var atvinnuleysið 9% í Evrópusambandslöndunum 28 í desember en var 9,9% í sama mánuði ári áður. Í þeim löndum sem eru með evru sem gjaldmiðil, en þau 19 talsins, var atvinnuleysið 10,4% en 11,4% í desember 2014.