Fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna á heilsárshótelum á síðasta ári er sú minnsta síðan árið 2010 en það ár fækkaði þeim um 1,9%. Nam fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna á heilsárshótelum rúmlega 3,8 milljónum á síðasta ári sem er 10,7% aukning frá fyrra ári þegar fjöldinn var tæplega 3,5 milljónir árið 2016.

Þetta kemur fram í nýjustu Hagsjá greiningardeildar Landsbankans , en þar er bent á að fjölgunin hafi  alltaf verið minni en sem nemur fjölgun ferðamanna, sem þeir rekja til þess að ferðamenn hafa í auknum mæli leitað í annars konar gistiform, s.s. Airbnb.

Þá þróun má síðan aftur skýra að hluta með verðlagningu en verð á hótelgistingu er töluvert mikið hærra en verð á gistingu í gegnum Airbnb. Á síðustu árum hefur verð hótelgistingar hækkað töluvert mikið í erlendri mynt. Þannig nam hækkun á verði hótelgistingar hér á landi tæplega 60% milli áranna 2015 og 2017, mælt í erlendri mynt.

Mikill vöxtur á Suðurnesjum

Var aukningin langmest á Suðurnesjum, 52,2%, en Suðurland kom næst með 21,2% aukningu. Minnsta aukningin var á Austurlandi, eða 0,3%.

Aukningin á höfuðborgarsvæðinu var töluvert minni en yfir landið í heild en fjöldi gistinátta jókst um 5,5% frá fyrra ári á höfuðborgarsvæðinu. Bendir bankinn á að fjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu hafi yfirleitt aukist hlutfallslega minna en á landinu í heild.

Af því má ráða að hlutdeild höfuðborgarsvæðisins hafi gefið eftir á síðustu árum. Um 62,6% gistinátta á öllu landinu voru á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári sem er lægsta hlutfallið sem mælst hefur. Árið fyrir uppsveifluna, 2010, var þetta hlutfall 72,9%.

Árstíðarsveiflan farið úr 184% niður í 42,4%

Jafnframt má sjá að árstíðarsveiflan í gistinóttum hélt áfram að dragast saman á síðasta ári og hefur hlutfall gistinátta sem teknar voru yfir sumarmánuðina farið úr 54,1% í júní, júlí og ágúst niður í 42,4% á síðasta ári. Var hún minnst á höfuðborgarsvæðinu eða 14% á síðasta ári, næstminnst á Suðurnesjum eða 33% og Suðurlandi, tæplega 60% en langmest á Austurlandi, eða 330%.

Árstíðasveiflan á þennan mælikvarða hefur minnkað stöðugt frá árinu 2010 þegar hún mældist tæp 155%, en tölur Hagstofunnar ná allt aftur til ársins 1997. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en þá var þetta hlutfall 184%.