Félagsmiðlar hverskonar — Facebook, Twitter, Snapchat o.s.frv. — hafa mjög rutt sér rúms á undanförnum árum. Þetta eru skilgetin afkvæmi netbyltingarinnar, en snjallsímavæðingin hefur enn hert á þeirri þróun.

Það er því athyglisvert að horfa til þess hversu mismikið félagsmiðlar eru notaðir í einstökum ríkjum, líkt og sjá má hér að ofan. Vissulega tengist það sumpart netvæðingu almennt, sem aftur tengist efnahag og velmegun nokkuð, en hér ræðir um 14 þróuð, vestræn hagkerfi og munurinn á notkun félagsmiðla er ekki allur í beinu hlutfalli við netvæðingu. Alls ekki, eins og vel má sjá hjá öxulveldunum Japan og Þýskalandi.

Þar að baki kann að búa menningarmunur, mögulega mismikil markaðssetning og að einhverju leyti má rekja það til mismikillar útbreiðslu snjallsíma.