Landsbankinn spáir því að þegar Hagstofa Íslands birti vísitölu neysluverðs föstudaginn 27. október næstkomandi hafi verðbólgan aukist um 0,20% milli mánaða. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er spá Arion banka nokkru hærri, en greiningardeild bankans spáir að verðbólgan muni hækka um 0,3% í október, sem þýðir að ársverðbólgan muni þá standa í 1,7%.

Ef spá greiningardeildar Landsbankans gangi hins vegar eftir mun ársverðbólgan fara úr 1,4% í 1,6% í október, en jafnframt spáir bankinn að hún fari í 1,7% í janúar, meðan Arion banki spáir þá 2,0% verðbólgu. Landsbankinn gerði ráð fyrir meiri hækkun á vísitölu neysluverðs í septembermánuði, en þá hækkaði verðbólgan um 0,14% á milli mánaða að því er segir í Hagsjá bankans.

Segir bankinn að muninn megi fyrst og fremst rekja til þess að matur og drykkjarvara hafi lækkað töluvert mikið eða um 1,3% milli mánaða, en eins og Viðskiptablaðið hefur bent á virðist lækkun gjalda og tolla á þessar vörur hafa skilað sér til neytenda.

Gerir Landsbankinn að þar megi þakka tilkomu Costco sérstaklega en lækkunin var að þeirra mati óvænt í ljósi gengisveikingar íslensku krónunnar síðustu mánuði á undan.