Mervyn King, fyrrum seðlabankastjóri Bretlands, telur ákveðin tækifæri felast í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta sagði King í útvarpsviðtali á BBC í morgun .

Hann sagði að Brexit væru ekki „endalok heimsins" fyrir Breta þó umskiptin yrðu ekki auðveld enda áskoranirnar margar. Raunveruleg tækifæri fælust í því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Í því sambandi nefndi hann sérstaklega umbætur í landbúnaðarkerfinu og aukið samstarf við Írland.

„Að standa fyrir utan frekar misheppnað Evrópusamband, sérstaklega í efnahagslegum skilningi, veitir okkur tækifæri en veldur okkur auðvitað líka pólitískum erfiðleikum," sagði King.