Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, ræddi um vegamál í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann að hann ætlar að forgangsraða til þeirra vegarkafla sem hafi kostað hættulegustu slysin. Jón segir að það verði farið í gerð mislægra gatnamóta við Krýsuveg í Hafnarfirði sem og að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar.

Fagna ákvörðuninni

Hafnafjarðarbær fagnar ákvörðuninni. Í fréttatilkynningu frá bæjarfélaginu kemur fram að: „Gatnamótin eru mikið öryggismál fyrir m.a. íbúa Vallahverfis og alla þá sem erindi eiga á stækkandi atvinnusvæði í Hellna- og Kapelluhrauni.“

„Það er óhætt að segja að Hafnarfjörður hafi setið eftir þegar kemur að útdeilingu fjármuna vegna framkvæmda við stofnvegakerfið. Þessi ákvörðun markar því ákveðin tímamót. Fleiri brýn verkefni liggja fyrir í uppbyggingu stofnvegakerfisins í gegnum bæinn en auk gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar eru tvenn gatnamót í kerfinu sem löngu eru hætt að anna þeirri umferð sem um þau fara. Hlíðartorg er hringtorg á gatnamótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu/Hlíðarbergs. Þau gatnamót eru yfirfull í dag og á álagstímum ná bílaraðir langleiðina að Straumsvík. Nauðsynlegt er að auka flutningsgetu þessa hringtorga með einhverju móti og koma með varanlegar lausnir sem auka öryggi allra hlutaðeigandi. Einnig þarf að horfa til gatnamóta Fjarðarhrauns og Reykjanesbrautar við Kaplakrika,“ er einnig tekið fram í tilkynningu frá Hafnafirði.