Sýningaréttur á ensku úrvalsdeildinni, vinsælasta íþróttaefni hér á landi, fer frá Stöð 2 Sport yfir til Símans frá og með haustinu 2019 og fram á vormánuði 2022. Breytingin gæti haft umtalsverð áhrif í för með sér. Enski boltinn var sagður „hjartað í útsendingum Stöð 2 Sport“, í samrunatilkynningu Sýnar vegna kaupa á fjölmiðlum 365 miðla á síðasta ári. Ummælin koma úr þeim hluta samrunaskýrslunnar sem merkt var sem trúnaðarmál og Samkeppniseftirlitið birti á vef sínum en fjarlægði skömmu síðar.

„Enski boltinn er það efni á Stöð 2 sport sem fær mesta einstaka áhorfið,“ segir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri miðla Sýnar. „Það er nú samt bara 30% af heildaráhorfinu. Stærstu einstöku íþróttaviðburðirnir okkar eru í Meistaradeildinni. Þar koma flestir til að horfa þó að áhorfið í heildina sé meira á enska boltann. Þó að það hafi verið fyrir minn tíma þá höfum við gengið í gengum þetta áður og það gekk víst bara ljómandi vel segja þeir sem það upplifðu,“ segir Björn. Á árunum 2004 til 2007 missti stöðin sýningaréttinn á ensku úrvalsdeildinni til Skjás eins.

Björn útilokar ekki að gerðar verði breytingar á gjaldskrá Stöðvar 2 Sport þegar enska úrvalsdeildin flyst yfir til Símans. „Við lækkuðum verð talsvert í vor, fórum í 14.900 krónum í 9.900 krónur sem var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú sett fram til að gera efnið aðgengilegt fyrir fleiri,” segir Björn. Áskrifendur að Stöð 2 Sport séu í dag vel á annað tug þúsunda. Í fjárfestakynningu vegna uppgjörs Sýnar í gær kom fram að áskrifendum hefði fjölgað um 35% síðan verðið var lækkað í vor. Stöð 2 Sport verði áfram með fjölmargar útsendingar, sér í lagi af íslenskum íþróttaviðburðum. „Við munum hugsa vel hvernig við getum haldið áfram að bjóða mikil gæði og virði fyrir peninginn,” segir Björn. Í tilkynningu frá Sýn á föstudaginn var haft eftir Birni að Sýn hefði tapað sýningaréttinum vegna ofurtilboðs úr annarri átt. Orri Hauksson, forstjóri Símans, kannast ekki við að Síminn hefði sent inn ofurtilboð.

Bjóða á enska boltann einan og sér, óháð öðrum áskriftaleiðum á lægra verði en íþróttarásir Stöðvar 2 hafa verið á. „Við hefðum aldrei boðið meira en við teldum að stæði undir sér á viðskiptalegum forsendum. Ef þeir eru að vísa í ofurtilboð þá kom það allavega ekki frá okkur. Íþróttaefni er svo sem ekki gefins en þetta er lykilefni og auðvitað kostar þetta hraustlega. En við sjáum að við getum lækkað áskriftarverð frá því sem verið hefur og fengið talsvert út úr þessu,“ segir Orri. Hann bendir á að sýningarrétturinn hafi ýmsa spennandi kosti í för með sér, Síminn muni geta sýnt frá 15% fleiri leikjum en á yfirstandandi tímabili. Þá sé stefnt á að bjóða upp á 4K útsendingar af ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn. „Okkur líður mjög vel með það sem við borguðum fyrir þetta og það sem við erum að fá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .