Vinnumálastofnun barst í október tilkynning um hópuppsögn þar sem 61 starfsmanni var sagt upp störfum í verslunarstarfssemi.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir í samtali við Morgunblaðið að verslun Debenhams í Smáralindinni verði lokað í lok janúar þar sem ekki náðist samkomulag um áframhaldandi leigu á verslunarhúsnæði í Smáralind.

„Þetta er 4.500 fermetra verslunarhúsnæði, það er ekki víða og hefði verið veruleg fjárfesting að koma versluninni upp á nýjum stað,“ segir Finnur.

„H&M opnar í verslunarrýminu á haustmánuðum og því var ljóst að við myndum þurfa að loka.“