Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að samkvæmt niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun, þá stefni í vinstristjórn á Íslandi.

Dýrkeyptur kokteill

„Samkvæmt þessu stefnir í vinstri stjórn hér á Íslandi og vegna þess hve mikið atkvæðin dreifast er ljóst að fjóra flokka þarf til að hnoða þeirri stjórn saman,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í Viðtali við Morgunblaðið. Segir hann slíka ríkisstjórn vera vond tíðindi fyrir landsmenn.

„En þetta myndi þýða mjög veika ríkisstjórn fjögurra flokka sem hafa boðað uppstokkun á stjórnarskrá, aðildarviðræður við Evrópusambandið, skattahækkanir og stóraukin ríkisútgjöld. Þessi blanda getur reynst dýrkeyptur kokteill.“