Mjólkurfernurnar frá MS, sem eru órjúfanlegur hluti af daglegu lífi margra Íslendinga, fá nú nýtt útlit. Nýju umbúðirnar munu taka við af þeim gömlu eftir því sem umbúðabirgðir klárast en MS leggur mikla áherslu á að nýta það sem til er og forðast að henda heilum umbúðum.

Ef vel er að gáð sést að undir hefðbundnum merkingum á íslensku er komin lítill texti á ensku, þar sem Nýmjólkin heitir nú Whole Milk, Léttmjólkin heitir Semi-Skimmed Milk og Undanrennan Skimmed Milk upp á enska tungu.

13 ár eru síðan útlit fernanna breyttist síðast og við vinnu á nýju umbúðunum var að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, lögð áhersla á að halda í sömu grunnliti og áður enda skipta þeir miklu máli þegar neytendur kaupa mjólkina.

Plastið unnið úr sykurreir

Umbúðahönnunin er afrakstur vinnu auglýsingastofunnar Ennemm og markaðs- og vöruþróunardeildar MS og á nýju mjólkurumbúðum má finna texta um vítamín og steinefni sem mjólkin inniheldur auk þess sem neytendum er bent á skemmtileg neyslutilefni með mjólkinni.

Fyrir ári síðan tók Mjólkursamsalan í notkun nýjar og umhverfisvænni mjólkurfernur sem eru þær umhverfisvænstu sem völ er á fyrir drykkjarmjólk. Umbúðirnar eru ekki eingöngu endurvinnanlegar heldur eru þær jafnframt búnar til úr endurnýjanlegu hráefni úr plönturíkinu.

Pappinn er úr ábyrgri skógrækt þar sem skógarnir fá að endurnýja sig og trjávexti er haldið gangandi og plastið er unnið úr sykurreyr í stað olíu og er því ekki gengið á takmarkaðar jarðefnaauðlindir og á sama tíma er dregið úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.

Af þessu tilefni hefur vefurinn ms.is/mjolk verið opnaður en þar geta neytendur lesið sér til um hollustu mjólkur og tekið þátt í skemmtilegum leik í byrjun maí um mjólk og meðlæti þar sem fjöldi glæsilegra vinninga verður í boði fyrir heppna þátttakendur.