„Þetta er ótrúlega gleðilegur dagur,“ segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú ehf. í tilefni af nýju frumvarpi landbúnaðarráðherra sem hefur verið birt til að fá umsögn hagsmunaaðila.

„Við teljum að þetta sé gríðarlega mikilvægu áfangi í því að auka samkeppni á mjólkurvörumarkaði. Ég bind miklar vonir við að Alþingi afgreiði málið til að koma á virkri samkeppni á mjólkurmarkaði.“

Gerir frumvarpið meðal annars ráð fyrir því að undanþágur mjólkuriðnaðarins á Íslandi frá samkeppnislögum verði þrengdar að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins um málið.

Einnig verður afurðarstöðvum óheimilt að semja um verkaskiptingu og verðtilfærslur á milli einstakra afurða.

Allt annað umhverfi

Arnar Árnason, bóndi á Hranastöðum og formaður Landssambands kúabænda, segist telja að ráðherra komi með þessu frumvarpi í bakið á bændum með því að virða ekki fyrri samkomulag.

Vísar hann þar í álit meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við afgreiðslu á búvörusamningum á síðasta ári þess efnis að reynt yrði að ná sátt um þessi mál til framtíðar í sérstökum starfshópi.

„Þetta verður allt annað umhverfi fyrir mjólkurframleiðslu en unnið hefur verið eftir. Alveg nýr veruleiki,“ segir Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar.

„Mér sýnist að mjólkurframleiðsla á Íslandi muni helmingast á tiltölulega skömmum tíma, verði þetta framkvæmt.“

Ari Edwald segir margt óljóst í textanum

Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra MS að hann geri ráð fyrir því að þessi frumvarpsdrög, sem grundvallast á tillögum Samkeppniseftirlitsins, fari eins og aðrar hugmyndir til úrvinnslu í endurskoðunarnefndinni sem ráðherra hefur skipað.

Segir hann ekki tímabært að tjá sig frekar um áhrif breytinganna á fyrirtækið því margt sé óljóst í textanum.