Samkvæmt verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ hefur verð á mjólkurvörum hækkað í öllum verslunum. Könnunin var framkvæmd í maí 2015 og svo aftur í september síðastliðnum. Af þeim vörum sem bornar eru saman má sjá einstöku lækkanir en það eru aðallega ávextir og grænmeti sem lækka í verði, en vöruflokkurinn sveiflast árstíðabundið í verði. Þetta kemur fram á heimasíðu ASÍ .

Í verslunum Iceland og Hagkaupum hefur verð hækkað í um 60% tilvika, hjá Samkaupum-Úrvali, Nettó og Krónunni í um 50% tilvika og hjá Bónus í um 40% tilvika. Í öllum verslunum er sama verð á milli mælinga á þónokkrum vörum.

Mjólkurvörur og ostur hækkar töluvert í öllum verslunum en algengast er að sjá um 4% hækkun á tímabilinu. Fjörmjólk hefur til að mynda hækkað um allt að 9% á tímabilinu og 500gr af hreinu skyri frá KEA hækkað um 2-7%.