Bretar ganga að kjörborðinu eftir þrjár vikur. Mörgum hefur komið á óvart hversu langt til vinstri Theresa May hefur farið og þær áherslur eru enn meira áberandi vegna þess að hún er í algerum forgrunni í kosningabaráttu íhaldsmanna.

Þannig hafa í stefnuskrá flokksins ratað margvísleg málefni, sem Ed Miliband reyndi að bjóða upp á í kosningunum 2013. Þá úthrópuðu ýmsir íhaldsmenn þau sem marxíska kreddu og vitleysu, en þeir láta af einhverjum ástæðum ekki á sér kræla nú.

Þarna ræðir um málefni eins og verðlagsstjórn á orku (eins og Óðinn fjallaði um hér í Viðskiptablaðinu fyrir hálfum mánuði), launþegasæti í stjórnum fyrirtækja, skattahækkanir og verulegar útgjaldahækkanir hins opinbera. Sumt, eins og launaþak á fégráðuga forstjóra í einkageiranum, eru málefni sem Miliband taldi ganga allt of langt og jafnvel Corbyn þótti of metnaðarfullt!

Hugmyndafræðinni hafnað

Það er því ekki að ófyrirsynju, sem sumir stuðningsmenn flokksins hafa spurt hvort frú May sé að forsmá arfleifð Margrétar Thatcher.

May hefur hafnað því, en hún hefur svo sem aldrei verið neinn sérstakur thatcheristi og aldrei dregið dul á að hún sé íhaldsmaður, ekki frjálshyggjumaður í neinum skilningi. Það er út af fyrir sig engin goðgá í Íhaldsflokknum. Hann hefur alla tíð hafnað hvers kyns hugmyndafræði og lagt áherslu á að flokkurinn sé raunsæisflokkur, nánast tækifærissinnaður að mati heitari hugsjónamanna innan hans. Thatcher var á sinn hátt undantekning, en þá skyldu menn ekki gleyma því að sjálf gat hún hagað seglum eftir vindi og var ekki thatcheristi!

Fyrir sitt leyti hefur frú May ávallt lagt áherslu á að Íhaldsflokkurinn verði að milda ásýnd sína, margir líti á hann sem fáskiptinn, jafnvel andstyggilegan.

Það þarf því ekki að koma á óvart að hún fari vel yfir á miðjuna og eru fæstir íhaldsmenn mjög órólegir vegna þessarar vinstribeygju leiðtogans. Altjent meðan hún fiskar.

Undanhald frá árangri

Það er hins vegar kaldhæðnislegt að Íhaldsflokkurinn sé að slaka á frjálshyggjunni einmitt þegar þau sjónarmið eru að skila sem mestum árangri. Bretar hafa komist ótrúlega vel frá fjármálakreppunni – sérstaklega í samanburði við stöðnunina á meginlandi Evrópu – og þversögnin um að skattalækkanir færi auknar skatttekjur hefur skilað undraverðum árangri.

Ekki síst hafa þó skattalækkanir til handa hinna lægstlaunuðu (með það fyrir augum að laða fólk úr vítahring velferðarbóta) haft stórkostleg áhrif, en fleiri störf hafa skapast á undanförnum árum en nokkur dæmi eru til um í sögu þjóðarinnar. Á sama tíma hefur launajöfnuður orðið sá minnsti í þrjá áratugi. Á þetta minnast íhaldsmenn hins vegar ekki einu orði í kosningabaráttunni.

Fraser Nelson, ritstjóri Spectator, orðaði það svo að Verkamannaflokkurinn anaði út í kosningar án þess að vita hvað væri að, en íhaldsmennirnir ösluðu áfram til sigurs, án þess að vita hvað þeir væru að gera rétt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .