Norvik hf., móðurfélag Byko, skilaði hagnaði umm á 1,2 milljónir evra í fyrra, sem samsvarar um 155 milljónum króna. Árið 2014 nam hagnaðurinn 53,2 milljónum evra, en munurinn skýrist af því að árið 2014 seldi Norvik fimm innlend dótturfélög. Þegar horft er framhjá þeim lið í reikningnum fyrir árið 2014 nam hagnaður félagsins það ár 1,9 milljónum evra.

Velta félagsins nam í fyrra 252,3 milljónum evra, en var 237,3 milljónir evra árið á undan. Framlegð var svipuð, eða um 60,6 milljónir evra árið 2014, en 62,4 milljónir evra í fyrra.

Eignir félagsins námu um síðustu áramót 148,8 milljónum evra, sem er aukning um rúmar tvær milljónir frá árslokum 2014. Skuldir héldust nær óbreyttar á milli ára og námu um síðustu áramót 54,2 milljónum evra, en þar af voru vaxtaberandi langtímaskuldir 13,3 milljónir evra. Eigið fé nam 94,5 milljónum evra um síðustu áramót.

Í lok febrúar seldi félagið fimm innlend dótturfélög. Aflögð starfsemi er sýnd sem sérstakur liður í rekstrarreikningi og fyrir árið 2014 nemur þessi liður milljónum evra, en í fyrra voru engar tekjur af þessari starfsemi, eins og gefur að skilja.

Norvik á og rekur dótturfélög í timburiðnaði og flutningastarfsemi, en meðal dótturfélaga Norvik eru Byko ehf., Bíldshöfði ehf. og Axent ehf. á Íslandi, en auki þeirra á Norvik nokkur erlend félög, til að mynda SIA BYKO-LAT, Jarl Timber AB og SIA Norvik Timber Industries. Stærstu eigendur Norvik eru Decca Holding í Danmörku með 27,42%, Jón Helgi Guðmundsson með 24,53% og Norvik fasteignir ehf. með 21,87%.