„Ætli veiðinni sé ekki best líst með því að segja að hún hafi verið upp og ofan. Hafís og brælur voru að gera okkur lífið leitt á tímabili en ef vindáttin var rétt og hafísinn hopaði þá var stundum feiknaleg veiði,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, í viðtali á heimasíðu HB Granda, en togarinn er nýkominn til hafnar í Reykjavík eftir veiðiferð á Vestfjarðamið.

Eiríkur segir frá því að þeirhófu veiðiferðina á að dóla austur á Strandagrunn í brælu en þar var róleg veiði.

„Við fórum því á Þverálshornið og Halann en þar var þá erfitt að athafna sig vegna hafíss. Þannig var ástandið reyndar í öllum kantinum og það var ekki fyrr en við komum vestur undir Víkurál að við fundum lítið svæði til að athafna okkur á. Þar var mjög góð þorskveiði en eftir því sem skipunum fjölgaði þá minnkaði veiðin,“ segir Eiríkur en hann brá þá á það ráð að fara aftur norður eftir.

„Við vorum komnir aftur norður síðdegis á laugardag og þá gerði norðaustan golu. Við það tók hafísinn að hörfa. Þá komumst við í Djúpkrókinn og þá um kvöldið og aðfararnótt sunnudagsins var mjög góð þorskveiði. Þetta var greinilega göngufiskur, sem við höfum verið að bíða eftir í vetur, því það vottaði fyrir hrognum og sviljum, og þótt það lóðaði ekki á loðnutorfur þá var þessi fiskur vel haldinn af loðnuáti,“ segir Eiríkur en þegar hér var komið sögu var góðum þorskskammti náð og því ekki um annað að ræða en að halda til hafnar.

„Við tókum reyndar eitt karfakast á Jökultungunni í birtunni á heimleiðinni og það var ágætt,“ segir Eiríkur.

Áhöfnin á Sturlaugi er nú komin í jólafrí en ráðgert er að skipið fari í síðustu veiðiferð ársins á öðrum degi jóla. Í byrjun næsta árs flyst áhöfnin svo yfir á hinn nýja ísfisktogara Akurey AK.