Matsfyrirtækið Moody's lækkaði í morgun lánshæfiseinkunnir tíu evrópskra banka, fimm hollenskra, þriggja franskra, eins belgísks og eins lúxemborgísks banka. Samkvæmt tilkynningu Moody's hefur fyrirtækið á annað hundrað evrópskra fyrirtækja í skoðun, þar á meðal frönsku bankarisana BNP Paribas, Socfiete Generale og Credit Agricole. Moody's og hin matsfyrirtækin tvö, Fitch og Standard & Poors, hafa lækkað lánshæfiseinkunn margra evrópskra fyrirtækja fjölda fyrirtækja og banka í Evrópu að undanförnu, þar á meðal 16 spænskra banka, sex þýskra og þriggja austurrískra banka.

Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, greindi í gærkvöldi frá því að breska ríkið og Englandsbanki muni veita allt að 80 milljörðum punda, andvirði um 15.000 milljörðum króna, í svokallaða „Funding For Lending“ áætlun. Felur hún í sér að bankar geti fengið lán á hagstæðum kjörum gegn því að þeir láni það áfram til fyrirtækja og einstaklinga. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að alvarleg niðursveifla í Evrópu leiði til þess að lánamarkaðir í Bretlandi frjósi.