*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 2. september 2017 16:31

„Mörg fyrirtæki berjast í bökkum“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að miklar launahækkanir, styrking íslensku krónunnar, og óskilvirkt regluverk hafi neikvæð áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Pétur Gunnarsson
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir blikur á lofti.
Haraldur Guðjónsson

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), skrifar í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu að blikur væru á lofti í ferðaþjónustu og bendir á að mörg fyrirtæki ferðaþjónustunnar berjist í bökkum. Að hennar mati hafa ytri skilyrði fyrirtækjanna versnað til muna:

„Miklar launahækkanir, styrking íslensku krónunnar, mikill fjármagnskostnaður og óskilvirkt regluverk vega þar þyngst. Á sama tíma er neyslumynstur ferðamannsins að breytast, hann sparar við sig í almennri neyslu og afþreyingu,“ skrifar Helga. 

Hún vísar til þess að samkvæmt nýrri úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) féll Ísland um sjö sæti yfir samkeppnishæfni þjóða í ferðaþjónustu á síðasta sæti. Hún skrifar að auknir skattar og enn þyngri álögur hins opinbera á þessi sömu fyrirtæki eins og boðað er í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hljóti að kalla á endurskoðun við gerð fjárlaga fyrir næsta ár. 

Ferðaþjónustan þarf að sýna ábyrgð

Helga bendir þó á að ábyrgðin liggi einungis á herðum stjórnvalda eða sveitarfélaganna. Hún skrifar að hún liggi einnig á ferðaþjónustunni sjálfri. „Það er okkar að tryggja að gæði og sú þjónusta sem við bjóðum upp á, haldist í hendur við þær væntingar sem við erum búin að byggja upp hjá gestum okkar,“ skrifar Helga.

Hún segir að flest fyrirtæki ferðaþjónustunnar standi sig vel, en viðurkennir að það séu þó svartir sauðir sem fyrirfinnast í ferðaþjónustunni rétt eins og í öðrum atvinnugreinum. „ Rétt er þó að taka fram að langflestir eru að gera alveg hreint magnaða hluti. Stórkostlegt uppbyggingarstarf hefur átt sér stað, það er ekki sjálfgefið að ná að þróa og þroska fyrirtæki sín í miklum vexti, auka gæðavitund, þrautseigju og fagmennsku. Við skulum ekki gleyma því að ferðaþjónustan fjárfesti fyrir um 109 milljarða á síðasta ári - mörgum sinnum hærri upphæð en ríkið lagði í innviðauppbygginu á sama tíma,“ skrifar Helga.

Hagræðing eykst í greininni

Fyrr í sumar sagði Helga í samtali við Viðskiptablaðið, þegar hún var spurð út í aukna hagræðingu hjá fyrirtækjum ferðaþjónustunnar: „ Menn reyna að leita allra leiða. Fyrirtækin eru búin að fjárfesta mikið í innviðum upp á síðkastið. Þá hafa launahækkanir verið miklar á síðustu misserum og svo kemur gengisstyrkingin. Maður gæti alveg ætlað að frekari sam­ þjöppun muni eiga sér stað á markaði, sem að einhverju leyti væri til að bregðast við ástandinu.“

Í ágúst var tilkynnt um kaup Íslenskra fjallaleiðsögumanna og fjárfestingafélagsins Eldeyjar á Arcanum ferðaþjónustu og í byrjun síðasta mánaðar bárust fréttir þess efnis  að Iceland Travel, félag í eigu Icelandair Group, og Allrahanda GL, sem starfar hér á landi undir merkjum Gray Line hefðu sameinast. Einnig má nefna kaup Arctic Adventures á Extreme Iceland frá í því lok júnímánaðar sem dæmi um auknar sameiningar í ferðaþjónustu hér á landi. Það virðist því vera að ferðaþjónusta sé á nokkurs konar vendipunkti um þessar mundir.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim