Félagarnir Stefán Gunnarsson og Stefán Björnsson stofnuðu leikjafyrirtækið Solid Clouds ásamt öðrum á seinni hluta ársins 2013 og hófu þróun á tölvuleik sem í dag ber heitið Starborne. Árið eftir náðu þeir þriðja sætinu í frumkvöðlakeppninni Gullegginu og stuttu seinna fengu þeir sína fyrstu fjárfesta að borðinu, auk styrks frá Tækniþróunarsjóði.

Í dag er Starborne í þann mund að koma út í sinni fyrstu opinberu mynd, en í næsta mánuði verður frumútgáfa (svokölluð „alpha“) leiksins gefin út. „Við köllum þetta ennþá alpha þótt við séum að auka umsvifin, síðan viljum við komast í betu í apríl á næsta ári þegar við erum búnir að prufa lokaleikkerfin okkar aðeins betur, við þurfum ansi mikla prufun í það. Við stefnum svo á að gefa endanlega útgáfu leiksins út í lok næsta ársm,“ segir Stefán Gunnarsson.

Grunnhugmyndin var að hanna tölvuleik byggðan á áratugalangri reynslu Stefáns og Stefáns af flóknum borðspilum og tölvuleikjum í sama anda. Hugmyndin kviknaði hjá Stefáni Gunnarssyni vegna þess að honum fannst vöntun á ákveðinni tegund tölvuleikja, en hann gerði sér ekki fulla grein fyrir því strax í upphafi hvílíkt ferðalag hann var að leggja upp í. „Ef þú hefðir sagt þá að við þyrftum að ná í 600 milljónir, þetta myndi taka mörg ár, og ég yrði orðinn sköllóttur eftir tvö, hefði kannski þyrmt aðeins yfir mig, en ég sé ekki eftir neinu, þetta er búið að vera alveg frábært. Þetta er orðin miklu meiri vara en ég ætlaði upprunalega að vera með, miklu stærri smíð.“

Eins og þúsundfalt borðspil í Google Earth
Leikurinn er á vissan hátt eins og að spila borðspil í gegnum tölvu, en hver leikur er þó töluvert umfangs- og tilkomumeiri en meðal borðspil. „Þetta er ekkert annað en borðspil sem gerist í rauntíma. Þetta er borðspil að því leyti að við setjum leik í gang og það tekur þrjá mánuði fyrir hann að klára sig, en við erum með marga leiki í gangi. Hann getur þó klárast fyrr ef spilararnir ná einhverjum ákveðnum markmiðum.“ segir Stefán Gunnarsson, og bætir við að þótt spilunin sé sambærileg við borðspil í grunninn sé leikborðið af allt annarri stærðargráðu. „Í leiknum etja þúsundir spilara kappi hver við annan í rauntíma á risastóru stöðukorti. Í stað þess að leikfletir hlaupi kannski á tugum í hefðbundnu borðspili, eru þeir yfir milljón. Spilarar geta þysjað inn og út af kortinu til að greina framgang leiksins, en enginn tölvuleikur býður í dag upp á slíkt. Viðmótið er í raun svipað og í Google Earth.“

Mikil vinna hefur farið í þróun leiksins síðustu ár og prufuútgáfur hafa verið gefnar út tímabundið áður, en nú telur fyrirtækið sig loksins reiðubúið til að gefa út varanlega frumútgáfu. „Við erum búnir að taka sjö alþjóðlegar prufur áður, svo við höfum alveg reynsluna af því að gefa út, en við höfum hingað til alltaf gefið út, leyft þessu að malla í nokkra mánuði, safnað upplýsingum og svo farið aftur að þróa. Þannig að þetta hefur verið þessi hringrás ansi lengi, en nú erum við að fara úr henni.

Það sem við höfum verið að gera mikið síðastliðið ár er að straumlínulaga leikinn eins og við getum til að undirbúa hann fyrir fulla útgáfu. Þegar þú ert búinn að vera að þróa í 4-5 ár eins og við, og svo kemur að því að það þarf að fara að gefa út, þá þarftu að fara að hreinsa svolítið til. Menn hafa verið að vinna hörðum höndum hérna öll kvöld og um helgar,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .